Lánshæfi Hafnarfjarðar upp um tvo flokka

Gunnar Axel Axelsson Formaður bæjarráðs

Gunnar Axel Axelsson
Formaður bæjarráðs

Nýtt lánshæfismat fyrir bæjarsjóð var kynnt á fundi bæjarráðs í morgun en samkvæmt því færist sveitarfélagið upp um tvo flokka og er nú í flokki i.BBB1 sem er sama flokkun og meðal annars Kópavogsbær og Arion banki hafa nýlega hlotið.

Að sögn Gunnars Axels Axelssonar formanns bæjarráðs undirstrikar þetta nýja mat fyrst og síðast þann mikla árangur sem náðst hefur á undanförnum árum, þar sem lögð hefur verið rík áhersla á aðhald í rekstri sem hefur skilað sér í aukinni rekstrarframlegð og hærra veltufé frá rekstri. Það hafi gefið nauðsynlegt svigrúm til markvissrar niðurgreiðslu skulda og nauðsynlegra fjárfestinga í innviðum þeirrar þjónustu sem sveitarfélagið veitir bæjarbúum.

„Við höfum lagt mikla áherslu á vandaða áætlanagerð, að áætlunum sé fylgt eftir og allar ákvarðanir um útgjöld byggi á þeim. Það er að skila okkur þeim árangri sem nú birtist, jákvæð þróun allra lykilstærða í rekstrinum og bætt lánshæfi er auðvitað forsenda þess hve vel vinna við endurfjármögnun langtímaskulda hefur gengið.“, segir Gunnar Axel

Á fundi bæjarráðs í morgun var einnig kynnt tilboð Íslandsbanka um endurfjármögnun lána sveitarfélagsins og vísaði ráðið því til afgreiðslu í bæjarstjórn.  Þá voru jafnframt lögð fram drög að ársreikningi fyrir árið 2013 sem Gunnar Axel segir staðfestingu á þeirri góðu vinnu og ábyrgu fjármálastjórn sem meirihlutinn hafi staðið fyrir undanfarin ár.

„Umræðan um rekstur og fjárhagsleg málefni bæjarins hefur á köflum verið mjög neikvæð þar sem af er þessu kjörtímabili, en því miður hefur sú umræða oft á tíðum byggt á mjög hæpnum og stundum beinlínis röngum forsendum.  Á vissan hátt hefur sviðið verið opið fyrir málflutning af því tagi, enda óvissa í efnahagsumhverfi landsins mikil og árangur markvissra aðgerða tekur alltaf tíma að koma að fullu fram. Ég held að þeir sem hafa verið hvað iðnastir við að draga upp kolsvarta mynd af stöðu mála og framtíðarhorfum sveitarfélagsins hafi nú varla forsendur til að halda þeim málflutningi mikið áfram. Reynslan hefur þó kennt manni að maður skyldi aldrei gefa sér neitt fyrirfram í þeim efnum. Í mínum huga er verkefnið framundan að viðhalda því aðhaldi sem einkennt hefur fjármálastjórn bæjarins á undanförnum árum, tryggja að bærinn sé áfram fjármagnaður á hagstæðustu mögulegu kjörum og að skuldir verði áfram greiddar niður jafn markvisst og hratt og gert hefur verið undanfarin ár. Ef við höldum áfram á sömu braut þá er framtíðin ekkert annað en björt í okkar góða bæjarfélagi.“

segir Gunnar Axel Axelsson formaður bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar.Flokkar:Viðskipti

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: