Uppbygging í þjónustu við fatlað fólk í Hafnarfirði

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 21 .ágúst sl. tillögu bæjarráðs um að úthluta Styrktarfélaginu Ás tveimur byggingarlóðum í Hafnarfirði undir byggingu nýrra búsetukjarna fyrir fatlað fólk. Önnur lóðin er við Klukkuvelli en hin við Arnarhraun. Er lóðaúthlutunin í samræmi við samkomulag bæjarins og Styrktarfélagsins um byggingu og rekstur þriggja nýrra búsetukjarna í sveitarfélaginu. Unnið að því í samvinnu við Styrktarfélagið að finna hentuga lóð undir þriðja búsetukjarnann. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir muni hefjast fljótlega og íbúar geti flutt inn fyrir lok næsta árs.

Gunnar Axel Axelsson formaður bæjarráðs segir að í ljósi þess hve mikil uppsöfnuð þörf hafi verið fyrir ný búsetuúrræði þegar yfirfærsla málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga átti sér stað hafi ekki annað komið til greina en að taka nokkur skref í einu í þessum áfanga. Það sé forsenda þess að hægt sé að útrýma áralöngum biðlistum úr kerfinu.

Gunnaraxel„Hafnarfjörður setti sér strax mjög skýra stefnu í málfalokki fatlaðs fólks og hefur sýnt frumkvæði á mörgum sviðum í kjölfar yfirfærslunnar. Sveitarfélagið ruddi meðal annars brautina í aðkomu notenda að mótun þjónustunnar með stofnun svokallaðs Ráðgjafaráðs þjónustunotenda, bætt hefur verið við nýjum sértækum þjónustuúrræðum s.s. tómstundaúrræði fyrir framhaldsskólanemendur og fjölskylduráð hefur samþykkt að bjóða jafnframt uppá sérstakt tómstundaúrræði fyrir fötluð börn og unglinga á aldrinum 10-16 ára. Það eru dæmi um úrræði sem við höfum verið að þróa í nánu samstarfi og samráði við foreldra og byggja í grundvallaratriðum á þeim óskum og hugmyndum sem komið hafa frá þeim og börnum þeirra.

Hafnarfjörður hefur líka sýnt mikilvægt frumkvæði í þróun notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) og núna er unnið að því að innleiða svokallaða Fjölskyldumiðaða þjónustu fyrir börn með sérþarfir en í henni felst m.a. að foreldrar barna með sérþarfir eigi að geta haft einn tengilið (þjónustufulltrúa) hjá bæjarfélaginu sem þeir geta leitað til með sín mál. Hlutverk hans verður að sjá til þess að þjónusta sé veitt á öllum þjónustustigum, samþætta hana og losa foreldra undan því að þurfa að hafa samband við marga aðila á mismunandi stöðum til að fá ásættanleg gæði og samfellu í þjónustu við barn sitt. Og viðfangsefnin eru auðvitað miklu fleiri og verkefnið tekur að sjálfsögðu aldrei enda. Þarfirnar breytast, hugmyndir fólks um lífið og tilveruna breytast og viðmiðin þróast hjá fötluðu fólki jafnt sem ófötluðu fólki. “ segir Gunnar AxelFlokkar:Hafnfirðingar, Stjórnmál

%d bloggurum líkar þetta: