Menningarhús við Suðurgötu?

Húsnæði St. Jósefsspítala hefur staðið autt síðan í ársbyrjun 2012.

Húsnæði St. Jósefsspítala sem er að stærstum hluta í eigu ríkisins hefur staðið autt síðan í ársbyrjun 2012 .

Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum hefur Hafnarfjarðarbæ borist svar við erindi bæjarins til heilbrigðisráðherra vegna húsnæðis sem áður hýsti starfsemi St. Jósefsspítala. Húsnæðið hefur nú staðið autt frá því í ársbyrjun 2012 og liggur undir skemmdum. Óvíst er hvað ríkið hyggist gera við það. Í kjölfar þess að þáverandi velferðarráðherra lýsti því yfir að hann teldi eðlilegt að bærinn eignaðist fasteignirnar og finndi þeim nýtt hlutverk í þágu nærsamfélagsins sendu bæjaryfirvöld ráðuneytinu hugmyndir um hvernig það gæti orðið að veruleika.  Í svari nýs ráðherra er erindi bæjarins hafnað.

Bókaði bæjarráð vegna þessa á fundi sínum þann 18. Júlí sl. að mikilvægt væri að fá skýr svör frá ríkinu um hverjar fyrirætlanir þess séu varðandi umræddar fasteignir, hvort til standi að setja þær í söluferli eða nýta þær undir starfsemi á vegum ríkisins. Fól bæjarráð bæjarstjóra að óska eftir svörum við þessum spurningum.

Fordæmi fyrir aðkomu ríkisins að uppbyggingu menningarhúsa

Húsnæðið er að stærstum hluta í eigu ríkisins en bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa lagt á það ríka áherslu að samráð verði haft við bæinn um ráðstöfun þess og að allt kapp verði lagt á að finna því verðugt framtíðarhlutverk.   Í því skyni sendu bæjaryfirvöld ráðuneytinu erindi sem innihélt hugmyndir um það hvernig húsnæðið gæti þjónað nærsamfélaginu í Hafnarfirði sem fjölnota menningarhús. Var í því samhengi horft til sambærilegra verkefna sem ríkið hefur stutt myndarlega við í öðrum sveitarfélögum. Dæmi um slíkt vel heppnað verkefni eru breytingar gamla héraðssjúkrahússins á Ísafirði í safnahús. Þar lagði ríkið sitt af mörkum til þess að nýta mætti  í þágu viðkomandi nærsamfélags byggingar sem ríkið hafði ekki lengur not fyrir.

Töluverð skemmdaverk hafa verið unnin á húsnæðinu og ítrekað hefur verið brotist þar inn.

Töluverð skemmdaverk hafa verið unnin á húsnæðinu og ítrekað hefur verið brotist þar inn.

Ekki farið fram á bein fjárframlög frá ríkinu

Lögðu bæjaryfirvöld í Hafnarfirði til að með endurskipulagningu svæðisins og niðurrifi þess hluta bygginganna sem taldar eru ónýtar mætti skapa grundvöll til nýrrar uppbyggingar samhliða endurbótum á gömlu sjúkrarhúsbyggingunum.  Þannig yrði bænum falið að endurskipuleggja hluta svæðisins og glæða það nýju lífi. Með því móti væri hægt að tryggja nauðsynlegar tekjur til endurbótanna en gömlu spítalabyggingunum tilheyrir svæði sem mögulega mætti breyta í lóðir undir íbúðarhúsnæði. Það má því segja að í tillögum bæjarins hafi ekki aðeins falist hugmyndir um til hvers mætti nýta húsnæðið heldur einnig um hvernig hægt væri að fjármagna verkefnið án þess að til beinna fjárframlaga frá ríkinu þyrfti að koma.

Misvísandi svör frá ríkisvaldinu

Eins og áður segir lýsti Guðbjartur Hannesson þáverandi velferðarráðherra því yfir í janúar sl. að þar sem ríkinu hefði ekki tekist að finna húseignunum hlutverk þá teldi hann rétt að Hafnarfjarðarbær eignaðist þær og óskaði hann um leið eftir því að bæjaryfirvöld settu fram sínar hugmyndir um hvernig þær gætu nýst í þágu bæjarbúa.

Í frétt sem birtist þann 3. júní sl. var síðan haft eftir Kristjáni Þór Júlíussyni nýjum heilbrigðisráðherra að ekki lægi fyrir hvort ríkið ætlaði taka húsnæðið aftur í notkun sem sjúkrahús. Ef rétt er haft eftir ráðherranum þá er ekki útilokað að Landsspítalalnum verði gert að flytja hluta af þjónustu sinni aftur á Suðurgötuna. Slíkt myndi svo sannarlega marka stefnubreytingu af hálfu ríkisvaldsins sem hingað til hafa ekki séð það sem raunverulegan valkost.

Hluti bygginganna eru taldar ónýtar eða svo illa farnar að ekki teljist skynsamlegt að ráðast í dýrar endurbætur á þeim.

Hluti bygginganna eru taldar ónýtar eða svo illa farnar að ekki teljist skynsamlegt að ráðast í dýrar endurbætur á þeim.

Í annarri frétt sem birtist daginn eftir þann 4. júní sl. var hins vegar haft eftir sama ráðherra að hann vildi hefja formlegar viðræður við bæjaryfirvöld um framtíðarnotkun umræddra húseigna og hann teldi ljóst að ráðast þyrfti í umtalsverðar breytingar á húsnæðinu óháð því hvaða starfsemi yrði þar. Samkvæmt því sem fram kemur síðan í svaribréfi ráðherrans til bæjaryfirvalda hófust þær viðræður með fundi hans og bæjaryfirvalda þann 13. júní sl.

Svar ráðherrans við erindi bæjarins er svo dagsett 1. júlí sl. en eins og áður segir er hugmyndum bæjarins um hvernig húsnæðið getur nýst nærsamfélaginu sem fjölnota menningarhús hafnað án fyrirvara og án óska um frekari viðræður um málið.

Af innihaldi svarbréfsins má draga þá ályktun að ráðherrann telji það ekki forsvaranlegt að sveitarfélagið fái umræddar fasteignir til ráðstöfunar og eignar án þess að greiða ríkinu fyrir.  Það má því væntanlega gera ráð fyrir að krafa Hafnarfjarðarbæjar á hendur ríkinu um að það standi skil á leigu vegna afnota þess af húsnæði Sólvangs sl. áratugi verði tekin upp að nýju en leigugreiðslurnar hafa hingað til runnið til Fasteigna ríkisins í stað þess að renna til eiganda húsnæðisins, þ.e. til Hafnarfjarðarbæjar. Rök ríkisins fyrir þessu fyrirkomulagi og þar með gegn kröfu Hafnarfjarðarbæjar hafa verið þau að það sé ekki eðlilegt að annar hluti hins opinbera, þ.e. ríkið, greiði hinum hluta hins opinbera, þ.e. sveitarfélögum,  fyrir afnot af húsnæði sem er nýtt í almannaþágu.

Krafa bæjarráðs um að ráðherrann upplýsi bæjaryfirvöld um hverjar raunverulegar fyrirætlanir ríkisis séu varðandi umræddar húseignir hlýtur því að teljast bæði eðlileg og sanngjörn.

———————-

Í rafrænum fylgigögnum með fundargerð bæjarráðs  má nálgast afrit af erindi Hafnarfjarðarbæjar og svarbréfi ráðherrans.Flokkar:Hafnfirðingar, Menning, Stjórnmál

%d bloggurum líkar þetta: