
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfesti í dag samstarfssamning bæjarins og Brettafélags Hafnarfjarðar um uppbyggingu og rekstur aðstöðu til hjólabrettaiðkunar.
Í umræðum í bæjarstjórn kom fram að við gerð afnotasamnings yrði horft til sambærilegra samninga sem gerðir hafa verið við önnur íþrótta- og tómstundafélög í Hafnarfirði, þar sem félaginu verði úthlutað aðstöðu í samræmi við þarfir þess og áætlaða reglulega starfsemi á vegum þess. Er gert ráð fyrir að vinnu við gerð afnotasamnings verði lokið áður en vinnu við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2014 lýkur þannig að hægt verði að tryggja verkefninu eðlilegan framgang á næsta ári. Í framsögu sinni í bæjarstjórn sagði Gunnar Axel Axelsson formaður fjölskylduráðs og málshefjandi að þá muni liggja hver endanlegur fjárhagslegur stuðningur bæjarins við starfsemi félagsins verði, hvernig afnot húsnæðisins muni skiptast milli félagsins og skrifstofu æskulýðsmála og samstarfi þessara aðila verði háttað. Að sögn Gunnars Axels voru aðilar sammála um að eðlilegt væri að stilla verkefninu upp sem tilraunaverkefni til tveggja ára og væri ætlunin að nýta þann tíma og þá reynslu sem skapaðist til að þróa starfsemina og meta þörfina fyrir slíka aðstöðu til framtíðar í Hafnarfirði. Í ljósi þess að fyrir lægi að Björgunarsveitin væri að flytja á næstu vikum þá væri eðlilegt að nýta sumarið í þá undirbúningsvinnu að undirbúa gerð afnotasamnings við félagið.
Tekist á um málið í bæjarstjórn
Nokkuð var tekist á um málið í bæjarstjórn. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýndu að ekki lægju fyrir allar upplýsingar um hver endanlegur kostnaður bæjarins vegna verkefnisins yrði og ekki væri heldur öllum spurningum um starfsemi Brettafélagsins svarað, meðal annars hvort um væri að ræða íþróttafélag og hvort stjórn þess hyggðist sækja um aðild að ÍBH. Í svörum formanns fjölskylduráðs kom fram að um væri að ræða samstarfsyfirlýsingu en ekki endanlega útfærslu afnotasamnings og lögð væri áhersla á að vinnu við útfærslu verkefnisins og gerð afnotasamnings verði lokið áður en vinnu við fjárhagsáætlun næsta árs færi fram en ekki væri gert ráð fyrir útgjöldum vegna verkefnisins á þessu ári sem ekki rúmist innan áður samþykktrar fjárhagsáætlunar. Þá kom einnig fram í máli hans að fyrir lægi hver bókfærður kostnaður bæjarins væri í dag vegna afnota björgunarsveitarinnar af sama húsnæði og því væri hvorki sanngjarnt né rétt að stilla málinu upp með þeim hætti sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gerðu á fundi bæjarstjórnar. Ekki væri gert ráð fyrir að Brettafélagið fengi allt húsnæðið undir sína starfsemi og til stæði að nýta húsnæðið jafnframt undir skipulagt frístundastarf barna og unglinga á vegum skrifstofu æskulýðsmála. Kallaði Gunnar Axel eftir samstöðu í bæjarstjórn um málið og aðkomu bæjarins að því við gerð fjárhagsáætlunar síðar á þessu ári. Eftir stutt fundarhlé staðfesti bæjarstjórn samstarfsyfirlýsinguna með tíu atkvæðum en einn bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sat hjá við afgreiðslu málsins.
Það er full ástæða til að óska Brettafélaginu og öllu hafnfirsku áhugafólki um hjólabrettaiðkun til hamingju með þennan stóra áfanga.
Flokkar:Hafnfirðingar, Menning, Stjórnmál